Náttúra

Melrakkaslétta er kunn fyrir hlunnindi, fiskveiðar, fjörubeit, æðarvarp, eggjatöku og gjöful veiðivötn. Þarna er einstök náttúrufegurð á vorin og á sumarkvöldum og fjölskrúðugt fuglalíf. Af Rauðanúp er stórkostlegt útsýni og návígi við fuglalífið í dröngunum Karli og Kerlingu. Aðeins utan við Höskuldarnes er lítið fuglaskoðunarhús. Á Rauðanesi er falleg gönguleið, í um það bil 30 mín. akstursfjarlægð frá Raufarhöfn. Gengið í hring um svæðið, um 7 km. Fuglabjörg og lundaholur í stórbrotinni náttúru.

Sléttuganga

Melkrakkaslétta er gengin árlega undir leiðsögn fulltrúa Ferðafélags Norðurslóðar, í ágúst. Áhugasömum er bent að hafa samband við ffnordurslod@simnet.is. Gangan er um það bil 30 km og því mikilvægt að vera í góðri gönguþjálfun.

Gönguleið að Hraunhafnartanga (66°32´9.6″ N)

Ansi hreint skemmtileg gönguleið þar sem heimskautsbaugurinn er aðeins um 3 km undan landiHraunhafnartangi og Rifstangi eru nyrstu tangar landsins og ber mælingum ekki alltaf saman um hvor er lengri, fer það eftir því hvort mælt er á stórstreymi eða fjöru. 

Bílastæði er við Hraunhafnarvatn. Bílslóði liggur út á tangann en það er bæði fljótlegra og skemmtilegra að ganga. Leiðin er auðrötuð, við eltum vegslóðann út að vita og til baka. Gönguleiðin liggur eftir eða meðfram malarkambinum að vitanum, áfram að dys Þorgeirs Hávarðarsonar og félaga hans og til baka aftur. 

Athugið að öll umferð ökutækja er bönnuð.

Leiðin er fjölbreytt og skemmtileg, við sjáum fjörur og allt það sem sjórinn hefur þangað kastað en um leið upplifum við fuglalíf, bæði sjó- og mófugla.

Á varptíma er fólk beðið um að ganga varlega um og taka tillit til fuglalífsins. Á varptíma getur verið gott að hafa prik, húfu eða hjálm til að verjast kríunni en hún hefur tekið að sér eftirlitshlutverk hér eins og víða annarsstaðar. Passið ykkur að stíga ekki á hreiður.

Hraunhöfn dregur nafn sitt af náttúrulegri höfn, sem þótti sæmilegt skipalægi áður fyrr og er hennar getið í heimildum frá 13. öld. Smátt og smátt færðust siglingar frá Hraunhöfn til Raufarhafnar. Á hafísárunum færðu sjómenn gjarnan báta sína frá Raufarhöfn í Hraunhöfn, sem talin var öruggari fyrir þeim vágesti. 

Og fyrir þá göngugarpa sem áhuga hafa á vitum þá er Hraunhafnartangaviti byggður árið 1945 en tekinn í notkun 1951, hann er 18,5 metrar á hæð, ferkantaður með rauðu húsi fyrir vitaljósið. Ljósið blikkar til skiptis löngu og stuttu ljósi/blikki á 30 sekúndna fresti. Litur ljóssins fer eftir afstöðu frá vitanum en er annaðhvort rautt eða hvítt.

Aðeins austar en Hraunhafnarvatn liggur má finna lítinn hól sunnan (hægra megin) við veg. Sá heitir Meyjarhóll og er skemmtileg þjóðsaga honum tengd. Á ónefndum tíma herjaði mikil plága á íbúa Melrakkasléttu og féllu allir nema tveir. Ein kona á Austur Sléttu og einn maður á Vestur Sléttu. Þau lögðu land undir fót til að finna hvort annað og gerðu það á Meyjarhól. Eftir hitting þeirra var ljóst að ný kynslóð yrði til og Sléttubúar mundu lifa áfram.

Sagan af vígi Þorgeirs Hávarssonar 

Í fóstbræðrasögu er sagt frá vígi Þorgeirs Hávarssonar á tanganum. Hann var veginn eftir kröftuga vörn þar sem hann vó 14 menn. Höfuð Þorgeirs var skilið frá búknum og var kappinn dysjaður höfuðlaus á tanganum eins og aðrir sem féllu. Höfuðið flutti Þórarinn ofsi með sér inn í Eyjafjörð til vitnis um sigurinn. Þorgeirsdys er aðeins austar en vitinn. Sagt er að menn skuli þöglir ganga einn hring réttsælis umhverfis dysina, íhuga og óska öðrum heilla. 

Í Landnámu segir frá Arngeiri, sem nam Sléttu milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur. Þorgils og Oddur voru synir hans og dóttirin var Þuríður. 

Arngeir og Þorgils fóru eitt sinn í smalamennsku og urðu fyrir árás bjarndýrs sem drap þá báða. Oddur kom þar og drap björninn, flutti hann heim og át til að hefna bróður síns og föðurs. Eftir það varð hann hamrammur og erfiður viðureignar. 

Sagan segir að hann hafi gengið frá Hraunhöfn að kvöldi og verið komin í Þjórsárdal næsta morgun til að liðsinna systur sinni þar sem Þjórsárdælingar ætluðu að grýta hana í hel fyrir tröllskap.  

Eftir að hafa gengið þessa leið er hægt að kaupa staðfestingu þess efnis hjá öllum helstu ferðaþjónustuaðilum á Raufarhöfn.

Á svæðinu er fjölbreytt flóra og ýmsar tegundir að finna; holtasóley, blóðberg, klófíflar, hreindýramosi, loðvíðir, vetrarkvíðastör, aðalbláberjalyng, grámosi, týsfjóla, krækilyng, fjallavíðir, fölvakarta, geldingahnappur, engjarós, héluvorublóm, stjörnusteinbrjótur og hjartatvíblaðka, svo eitthvað sé nefnt.